Slippbarinn

Slippbarinn á Icelandair Hotel Reykjavík Marina hefur á skömmum tíma fest sig rækilega í sessi og er enn ein skraufjöðurinn í hatti hafnarsvæðisins sem er að verða afskaplega lifandi og skemmtilegt svæði jafnt fyrir borgarbúa sem ferðamenn.

Áherslan er ekki síst á kokteila og á fáum ef nokkrum öðrum stað í bænum þessa stund er sýndur jafnmikill metnaður þessa stundina. Sérstaðan er að draga fram klassíska drykki og fríska þá aðeins upp.

Slippbarinn er hins vegar líka matstaður og þótt matseðillinn sé ekki langur og flókinn þá hefur hann yfir sér ferskt og skemmtilegt yfirbragð. Þetta er ekki bara enn einn staðurinn heldur staður og eldhús sem hefur eitthvað fram að færa.  Best er að panta rétti sameiginlega og deila þeim, nær allir hentar þeir mjög vel til þess.

Þannig var osta- og pylsubakki eða „charcuterie“ eins og hann heitir á seðlinum mjög flott blanda af bæði spænsku, ítölsku og íslensku góðgæti. Spænsk pata negra-skinka í bland við íslenska osta og pylsur, vel samsett blanda. Brauðmetið er vel útilátið og við vorum mjög sátt við flatböku með kjúkling og hnetusmjörshummus, fínn hádegisréttur og dugar nánast fyrir tvo.

Stjörnunar á seðlinum eru hins vegar fiskréttirnir. Djúpsteiktur smokkfiskur með aioli er ekkert minna en geggjaður. Fiskurinn mjúkur og steikingin fullkominn – ekki of mikil, þetta er ekkert bras -og aiolið kryddað og skarpt. Hættulega gott.

Fiskur dagsins (fiskur í pönnu) hefur tvívegis orðið fyrir valinu, í annað skiptið var þorskur í hitt steinbítur, í bæði skiptin borin fram á pönnu, létteldaður í rjómasósu með grænmeti. Einfallt en að sama skapi nær fullkomið í einfaldleika sínum. Það er ekkert sem að maður vildi gera öðruvísi með þennan rétt.

Í eftirrétt dekadent ís og marengs með salthnetum, hvað getur maður beðið um meira?

Vínin sem eru í boði eru ekki mörg en þau eru vel valin og til í glasavís. Við fengum t.d. mjög góðan Pinot Gris frá Alsace og rautt Toskana-vín frá Poggione.

Styrkur Slippbarsins felst ekki síst í reynslumiklu og góðu starsfólk, bæði í matargerð og þjónustu. Þarna eru kunnugleg andlit frá Sjávargrillinu, Vox og Dill svo dæmi séu nefnd. Flott teymi og það skilar sér.

 

Deila.