Saltfiskur í stað páskaeggja

Matarhefðir eru oftar en ekki nátengdar sögulegum, menningarlegum og trúarlegum hefðum. Hér á Íslandi tengjum við páska við súkkulaði. Í hinum kaþólska heimi er tengingin við saltfisk hins vegar gamalgróin og enn í dag er það ófrávíkjanleg hefð á mörgum heimilum á Spáni, Ítalíu, Portúgal, Brasilíu og víðar að bera fram saltfisk á föstudaginn langa.

Hvers vegna? Jú, þetta er helgasta vika kristinnar trúar. Semana Santa eins og hún er kölluð á spænsku. Samkvæmt kaþólskum hefðum hefst löngufasta á þeim dögum sem að við kennum við bolludag, sprengidag og öskudag þótt líklega tengi fáir Íslendingar það að háma í sig saltkjöt við að framundan sé margra vikna fasta frá kjöti.

En hvernig tengist þetta allt saltfiski? Jú, það er tiltölulega nýlega sem að hægt var að ganga að ferskum fiski vísum í stórmörkuðum. Öldum saman urðu menn að treysta á aðrar aðferðir en frystingu og kæla til að geta fengið ætan fisk ætluðu þeir á annað borð að hlýta tilmælum kaþólsku kirkjunnar um að leggja sér fisk til munns á föstunni en ekki kjöt. Þurrkaði og saltaði fiskurinn frá Norður-Atlantshafi var eina leiðin til að tryggja það og enn í dag er saltfiskur eða bacalao eins og hann heitir á spænsku eða stoccofisso eins og hann heitir á ítölsku fastur liður á borðum ekki bara í páskavikunni heldur allt árið í hinum kaþólska heimi.

Við höfum í gegnum árin tekið saman  spennandi uppskriftir af saltfiski og þær má skoða með því að smella hér. 

Deila.