Altos Tempranillo 2011

Jean-Marc Sauboua festir fyrir rúmum áratug kaup á víngerðarhúsinu Altos de la Guardia í Rioja Alavesa. Sauboua sem er hálfur Frakki frá Bordeaux og hálfur Spánverji frá Katalóníu fékk til liðs við sig Hector Gomez sem áður hafði starfað sem víngerðarmaður hjá hinu fræga vínhúsi Pingus. Þeir leggja áherslu á nútímaleg Rioja-vín og hafa þau vakið mikla athygli.

Þetta er eitt af einföldustu vínunum frá Altos en engu að síður mikið vín, dökkt á lit, mjög dökkur ávöxtur í nefi, plómur og krækiber, eikin er áberandi, þarna er töluvert súkkulaði, kókos og kryddjurtir. Þykkt og þétt, öflug tannín.

2.090 krónur. Frábær kaup á því verði.

Deila.