Piparsteik Szechuan

Piparsteik Szechuan er „fusion“-afbrigði af hinni klassísku piparsteik þar sem að kínversk krydd eru notuð til að fá austurlenska tóna í þennan vestræna rétt. Þarna gegnir Szechuan-piparinn lykilatriði en hann er hægt að fá t.d. í asísku búðunum. Best er að nota þykkar Ribeye-steikur sem síðan má grilla eða steikja á hefðbundinn hátt.

Marinering

  • 1 dl sesamolía
  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 1 msk rifinn engifferrót
  • pipar

Setjið kryddlöginn í skál eða plastpoka (ziplock) og látið steikurnar liggja í leginum  í a.m.k. 2 klukkustundir, helst lengur og gjarnan yfir nótt og þá í ísskáp.

Kryddhjúpur

  • 1 msk svört piparkorn
  • 1 msk engiferkorn
  • 1 msk Szechuanpipar

Setjið kryddin á heita pönnu og þurrsteikið í um tvær mínútur. Veltið um með trésleif allan tímann. Þegar kryddkornin eru farin að dökkna og gefa af sér góða lykt eru þau tekin af pönnunni. Leyfið að kólna og myljið síðan í kryddkvörn eða morteli.

Takið steikurnar úr kryddleginum. Hjúpið með muldu kryddblöndunni. Saltið.

Steikið á pönnu eða grillið. Berið fram með t.d. sætum Hasselbackkartöflum og graslaukssósu.

Deila.