Majonnes er hægt að nota á margvíslegan hátt og er t.d. uppistaðan í mörgum sósum og salötum. Það er afskaplega auðvelt að búa til sitt eigið majonnes og það tekur bara örfáar mínútur. Þessi uppskrift hér er frönsk að uppruna sem sést á því að notað er sinnep. Þegar Ítalir gera majonnes er ekkert sinnep notað og þeir nota yfirleitt ólífuolíu á meðan Frakkarnir nota ljósa matarolíu.
- 3 egg
- 2 vænar msk Dijon-sinnep
- 6 dl matarolía
- safi úr hálfri sítrónu (ca 0,5 dl)
- salt og pipar
Setjið egg og sinnep í matvinnsluvél og hrærið vel saman. Hellið olíunni smám saman út í og látið vélina þeyta allan tímann. Blandan fer að þykkna mjög hratt. Bætið sítrónusafanum út í. Bragðið til með salti og pipar.
Setjið í ílát og geymið í ísskáp. Notið í t.d. kartöflusalat, Cole Slaw eða sósur.