Önd með grænpiparsósu

Það mikilvægasta við góða andaruppskrift er oft sósan. Hér er hún þykk og bragðmikil með rúsínum og grænpipar. Græn piparkorn eru seld í flestum verslunum í vatnslegi.

Hráefni:

  • 1 önd, ca 3 kíló
  • 1 púrrulaukur
  • 1 laukur
  • 2 gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 lárviðarlauf
  • 2-3 timjanstilkar
  • 3 dl vatn
  • 1 dl rauðvínsedik
  • 1 lítil dós tómatkraftur
  • 2 skalottulaukar
  • 3 dl rauðvín
  • 5 cl koníak
  • 1 msk sykur
  • 2 msk grænn pipar
  • 1 dl rúsínur
  • 1 tsk sojasósa
  • 1 msk smjör

Hitið ofninn í 225 gráður.

  1. Grófsaxið lauk, púrrulauk og gulrætur. Setjið í stórt steikarfat ásamt hvítlauksgeirunum.
  2. Þerrið öndina og saltið og piprið að innan og utan. (Haldið hálsinum og innyflum til haga ef þau fylgja).
  3. Setjið öndina á steikarfatið ofaná grænmetið og brúnið í ofninum í um 30-40 mínútur eða þar til hún hefur fengið á sig góðan lit allan hringinn. Snúið henni 1-2 sinnum á meðan.
  4. Takið öndina út. Skerið bringur og læri frá ásamt öðrum kjötmiklum bitum. Vefjið í álpappír og geymið.
  5. Skerið niður það sem eftir stendur ásamt hálsinum og hugsanlegum innyflum. Setjið aftur á steikarfatið með grænmetinu og eldið áfram í um 15 mínútur.
  6. Ef mikil fita hefur safnast saman í fatinu er mikilvægt að fleyta hana ofan af og henda.
  7. Hellið edikið á fatið í ofninum og látið það gufa upp. Bætið þá við vatninu og blandið því saman við grænmetið með sleif.
  8. Takið fatið út og síið vökvann úr pönnunni og setjið í pott.
  9. Bætið tómatpúrru, timjan og lárviðarlaufi saman við. Látið suðu koma upp og leyfið að krauma á lágum hita í um 30 mínútur. Síið og geymið.
  10. Þá erum við komin með góðan andakraft og kominn tími á sósugerðina.
  11. Fínsaxið skalottulaukin og setjið í pott ásamt rauðvíninu. Leyfið suðu að koma upp og sjóðið hægt niður um rúman helming.
  12. Bætið andakraftinum við ásamt koníaki, rjóma og sykri. Leyfið að krauma áfram í um 15 mínútur (lengur ef þið viljið hafa hana þykkari) og bætið  þá grænpipar og rúsínum við. Bætið einnig soja og smjöri saman við og hrærið saman. Smakkið og saltið og piprið ef þarf. Haldið heitu.
  13. Hitið upp bringurnar og lærin í ofni. Skerið niður í bita.
  14. Raðið á fat eða diska og berið fram.

Berið strax fram. Gott meðlæti er t.d. kartöflukrókettur eða Pommes Bernard.

ATH! Það er oft minna kjöt á öndinni en maður heldur. Stór önd er stundum á mörkum þess að duga fyrir fjóra. Því getur verið skynsamlegt að hafa einnig 1-2 andarbringur með og elda þær samkvæmt þessum leiðbeiningum hér. Oft er jafnvel betra að nota bara bringurnar, enda eru þær stærri og kjötmeiri en þær á öndunum sem yfirleitt fást heilar. Stundum eins og í þessari uppskrift er hins vegar betra að nota heila önd til að fá góðan grunn í sósuna.

Gott Bordeaux-vín frá Médoc á borð við Brio eða Tourelles de Longueville á vel við.

Deila.